Enn bíður ræktin

Og það er nú eiginlega bara vegna smá leti í mér. Á föstudaginn var ég reyndar með krakkana þar sem pabbi þeirra var að fara í óvissuferð með vinnunni. Þannig að það var skutl og sækj eins og venjulega út af fimleikunum 😉 Síðan var bara kósíkvöld hjá okkur, horft á mynd og höfðum það voða næs. Samt engin óhollusta hjá mér 😀

Í gær var ég bara svolítið dugleg og tók til, þreif ísskápinn, flokkaði þvottafjallið og fór síðan að undirbúa smá matarboð sem ég var með. Hafði voða góðan mat og drakk ótæpilega af hvítvíni og bjór :S En fyrir utan það var dagurinn bara nokkuð hollur. Fékk mér reyndar slatta af hnetum og rétturinn sem ég eldaði innihélt nú ansi mikið af olíu, en hann var samt hollur. Eldaði saltfisk á Miðjarðarhafsvísu og vááááá hvað þetta var hrikalega gott. Hef fengið svona Bacalhau á veitingastað, en ég get svo svarið það að það sem ég eldaði var miklu betra. Þið bara verið að fá uppskriftina og prófa:

Saltfiskur á miðjarðarhafsvísu

800 gr sérútvatnaður saltfiskur
hveiti, eftir þörfum
hvítur pipar

1/2 hvítlaukur
1/2 dl olía
1 dós niðurskorinn tómatur
1 krukka svartar ólífur
1 rauðlaukur
1/2 krukka kapers
1/2 krukka feta ostur í olíu

Þerrið fiskinn og veltið upp úr hveiti og pipar
Brytjið hvítlaukinn mjög smátt og mýkið örlítið í olíunni, veltið saltfisknum uppúr í smástund.

Setjið fiskinn í eldfast mót.
Dreifið tómatnum vel yfir saltfiskinn, sneiðið ólífur og rauðlauk og dreifið yfir auk kapers og að lokum feta ost. Ekki spara olíuna.

Bakið í ofni við 180°C í ca 10-12 mínútur

Ég notaði reyndar spelt í stað hveitis, einfaldlega vegna þess að ég nota eiginlega bara alltaf spelt í stað hveitis 😉

En suss hvað þetta var gott. Hafði með þessu svona litlar Parísarkartöflur sem ég hitaði í smá olíu á pönnu og kryddaði með jurtakryddi og hvítlauksdufti. Og svo var ég með ferskt salat líka. Meira að segja unnustanum fannst þetta sjúklega gott, og hann er almennt ekki hrifinn af svona gumsi eins og fetaosti, ólívum og lauk, hehehe.

Í dag er bara smá þynnkudagur og ég er að vanda mig við að detta ekki í neina óhollustu. Vaknaði frekar seint og fékk mér bara afgangana af saltfisknum. Á eftir er okkur reyndar boðið í smá kaffiboð, en ég verð bara að reyna að vera dugleg og standast þær freistingar sem þar eru. Ég er nefninlega búin að vera ansi dugleg í mataræðinu s.l. daga, þó svo að ég sé ekki komin af stað í ræktinni.

Njótið dagsins ;D

Færðu inn athugasemd